Greinar

Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna

Gott bókasafn – metnaðarmál allra sveitarfélaga

Sveitarfélögum ber að standa að þjónustu almenningsbókasafna.
Það er greinilegt að löggjafinn telur afar mikilvægt að tryggja landsmönnum jafnt aðgengi að almenningsbókasöfnum landsins með lögum um almenningsbókasöfn.
Í 1. grein laganna nr. 36/1997. segir m.a.:
“ Allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna. Er öllum sveitarfélögum skylt að standa að slíkri þjónustu í samræmi við þessi lög.”
Treysti sveitarfélög sér ekki til að standa ein að rekstri almenningsbókasafns er þeim heimilt samkvæmt 3. grein laganna
“að sameinast um rekstur”.
Sveitarfélögum er einnig heimilt með ákveðnum skilyrðum samkvæmt 4. grein laganna að
“sameina almenningsbókasafn og bókasafn grunnskóla”,.
Slíkt er þó almennt ekki talið æskilegt nema í fámennari sveitarfélögum.

Menningarmiðstöðvar og samkomustaður íbúanna
Lestrarfélögin gömlu, sem flest almenningsbókasöfn í dag byggja á, voru stofnuð af alþýðu fólks sem þyrsti í fróðleik og andlega skemmtan. Flest voru stofnuð kringum aldamótin 1900 og safnað var fé til að fjármagna bókakaupin.
Almenningsbókasöfn nútímans eru rekin af sveitarfélögum og víða eru þau einu menningarstofnanir þeirra. Þau eru að sjálfsögðu mis öflug og markast það oft af stærð sveitarfélaga, en ekki alltaf þó. Bókasöfnin miðla menningu og bjóða að sjálfsögðu upp á fjölbreyttan safnkost og aðgengi að alþjóðlegu efni á netinu.
Auk bókmenntatengdra menningarviðburða bjóða almenningsbókasöfn gjarnan upp á myndlistarsýningar og tónlistarflutning.

Mikilvæg lýðræðinu
Almenningsbókasöfn jafna aðgengi fólks að menningu, upplýsingum og þekkingu og fara ekki í manngreiningarálit við miðlun þeirra. Þau eru griðastaður fólks óháð stétt og stöðu þess í þjóðfélaginu.

,,Þriðji staðurinn”
Því meiri sem alþjóðavæðingin verður – þeim mun rótlausari finnst manninum hann vera. Í menningunni finnum við rætur okkar, sögu og sjálfsmynd.
Sagt er, að við höfum öll þörf fyrir ,,þriðja staðinn“, þ.e. stað sem ekki er heimili eða vinna/skóli og við þurfum ekki að vera í hlutverki gestgjafa eða gests. Almenningsbókasöfn eru tilvalin í þetta hlutverk, og má segja að bókasöfn séu eini gjaldfríi staðurinn sem almenningur getur sótt í dag þar sem hver og einn kemur á eigin forsendum og að eigin frumkvæði. Söfnin eru í meira mæli en áður orðin samkomustaður borgaranna. Þeir koma ekki eingöngu til að fá lánað safnefni og njóta menningarviðburða, heldur einnig í leit að samskiptum. Margir koma daglega og kíkja í blað eða bók yfir kaffibolla og spjalla.

Opna börnum og fullorðnum heim ævintýra og upplýsinga.
Mikilvægt er að kynna börnum og unglingum þá þjónustu sem þau eiga aðgang að í bókasöfnum landsins. Kennsla í heimildaleit og upplýsingalæsi, hvort heldur er á bók, blaði eða í gagnagrunni á netinu, svo og úrvinnsla heimilda, er undirstaða frekara náms.
Ekki er síður mikilvægt að opna börnum ævintýraheim bókanna og yndislestur.
Að ná góðum tökum á lestri stuðlar að betri námsárangri og almennri vellíðan.
Lestur er lífsstíll! Börn samtímans eru framtíðarnotendur bókasafna.

Afstaða sveitarstjórnarmanna mikilvæg
Skilningur stjórnenda sveitarfélaga á mikilvægi almenningsbókasafna og stuðningur við starfsemi þeirra er grundvallaratriði. Sá skilningur hefur orðið til þess að fjölmörg almenningsbókasöfn landsins hafa þróast í nútíma menningarmiðstöðvar með fjölbreytta starfsemi og þjónustu. Og íbúarnir kunna vel að meta það, eins og aðsóknar- og útlánatölur sýna. Almenningsbókasöfn reynast góður kostur.

SFA – Samstarfsvettvangur forstöðumanna almenningsbókasafna
Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna voru formlega stofnuð 1999, en samstarf og reglulegir fundir forstöðumanna hafa átt sér stað allt frá 1984.
Á vor og haustfundum hittast forstöðumenn smárra sem stórra almenningsbókasafna alls staðar að af landinu. Þessir fundir eru haldnir hér og þar um landið til skiptis.
Þar bera forstöðumenn saman bækur sínar og ræða sameiginleg praktísk og fagleg mál. Samtökin eru mikilvægur vettvangur samskipta og faglegrar umræðu og sameiginlegur málsvari safnanna út á við. Forstöðumenn allra almenningsbókasafna eru velkomnir í samtökin.

SFA Merkið

Merki og Barmmerki

Á vorfundi forstöðumanna almenningsbókasafna 1993 sem haldinn var í Vestmannaeyjum var skipaður starfshópur um merki fyrir íslensk alemnningsbókasöfn. Starfshópurinn kynnti niðurstöður sinar á haustfundi í Grindavík sama ár og í framhaldi af því var ákveðið að láta teikna nýtt merki fyrir söfnin. Einnig var ákveðið að vinna samhliða að vegskilti í samvinnu við Vegagerðina. Það var svo á Landsfundi bókavarða í Munaðarnesi í september 1995 að merkið var kynnt og samþykkt. Jón Ágúst Pálmason hannaði það og lýtur vegskiltið reglum Vegagerðarinnar um útlit en litirnir í litaútgáfu merksins eru táknrænir fyrir hina gömlu og virðulegu leðurinnbundnu bók til lífs- og litagleði ungviðisins.

Öllum bókasöfnum á Íslandi er heimilt að nota merkið.

Um notkun vegskiltisins gilda reglur Vegagerðarinnar.

Barmmerki


Barmmerki með merki almenningsbókasafna er m.a. hægt að panta hjá Skilti og merkingar, Efstaleiti 28, 230 Reykjanesbær.
Borgar Ólafsson s. 421-1225, fax 421-4425, netfang [email protected]