Fréttir

Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna

Fyrsta fréttabréf stjórnar

Kæru félagar

Nú hefur ný stjórn verið starfandi frá síðasta aðalfundi í október á síðasta ári. Fyrir þá sem misstu af nýrri skipan í stjórn þá verma eftirfarandi rassar stjórnarsessurnar:

Björk Hólm Þorsteinsdóttir (formaður) – Bókasafn Dalvíkurbyggðar

Þórdís Friðbjörnsdóttir (gjaldkeri) – Héraðsbókasafn Skagfirðinga

Katharina Schneider (ritari) – Héraðsbókasafn Blönduósi

Hólmkell Hreinsson (meðstjórnandi) – Amtsbókasafnið Akureyri

Hrönn Hafþórsdóttir (meðstjórnandi) – Bókasafn Fjallabyggðar

 

Stjórnin hefur ekki setið auðum höndum þó lítið hafi heyrst frá okkur til þessa. Við norðanmenn og konur höfum fundað mánaðarlega á fjarfundum síðan í október og farið yfir ýmis mál. Til að halda ykkur, félagsmönnum okkar og kollegum upplýstum ætlum við héðan af að senda frá okkur regluleg  fréttabréf líkt og það sem hér er ritað.

Í kjölfar líflegra umræða á síðasta aðalfundi félagsins í ákvað nýskipuð stjórn strax í upphafi að setja stóra raf- og hljóðbókarmálið í brennidepil. Eins og þekkt er orðið hefur lítil sem engin hreyfing verið á málinu í langan tíma. Viðræður hafa litlu skilað og skilningsleysi í garð Rafbókasafnsins algert.

Stjórnin ákvað að taka saman upplýsingar um viðfangsefnið og senda, í nafni formanns fyrir hönd stjórnar, erindi til bókasafnsráðs sem var endurvakið á árinu. Seinna í ferlinu var síðan ákveðið að senda yfirlýsinguna beint á Lilju Alfreðsdóttur, Mennta- og menningarmálaráðherra. Bréfið var sent um miðjan desember og skráð móttekið en við bíðum enn svara eða einhverra viðbragða yfir höfuð. Enn sem komið er er þögnin yfirgnæfandi. Félagsmenn geta lesið erindið í heild sinni með því að fylgja þessum tengli: https://docs.google.com/document/d/1V0KdjRhEwYjYmz_jT9k7LzqxP4CwNAlnzR-4uf3nqXg/edit?usp=sharing

Vefsíðumál hafa verið til skoðunar og vinnslu og höfum við fært fært efnið okkar yfir á wordpress síðu. Viðmót síðunnar er talsvert þægilegra en það sem var áður og höldum við áfram að setja inn nýtt efni og fréttir eins og tíðkast hefur. Engar stórlegar breytingar hafa orðið á útliti en það er okkar von að hún verði skilvirk og notaendavæn. Endilega lítið inn á svæðið og prófið sjálf.

En að öðru öllu gleðilegra. Stjórnin hefur leyft sér að dreyma um nokkrar útgáfur af vorfundi. Í fyrstu voru allir bjartsýnir á að heimsbyggðin öll yrði bólusett um vorið 2021 svo hægt yrði að bregða undir sig betri fætinum, fljúga á vit ævintýra og halda veglega hátíð í Osló. Eftir því sem tíminn leið urðu stjórnarmenn svartsýnni gagnvart þessum möguleika og á tímabili óttuðumst við að okkar eini möguleiki til að koma saman væri í gegnum koparþræði og fjarfundi.

Í dag erum við ögn bjartsýnni og stefnum ótrauð á þann möguleika að hittast í “kjötheimum” í byrjun maí (fimmtudaginn og föstudaginn 6. -7. maí) og er okkar fyrsti kostur Blönduós – annar kostur er Siglufjörður, en lengra erum við ekki komin í ferlinu. Fjárhagstaða félagsins er nokkuð góð svo okkur er ekkert að vanbúnaði að gera vel við okkar félagsmenn eftir allt sem hefur herjað á okkur síðustu misseri.

Við erum því í óða önn að leggja drög að dagskrá og væri afar gaman að heyra frá félagsmönnum hvort þið hafið einhverjar óskir, hugmyndir eða innlegg í þá umræðu. Við vitum það manna best að starfsfólk bókasafna er samansafn góðra og framsækinna hugmyndasmiða. Nú er tækifærið að láta ljós sitt skína. Ef þið lumið á góðri hugmynd megið þið endilega senda okkur línu á [email protected].

Við höfum þetta ekki lengra að sinni en munum láta heyra frá okkur aftur fljótlega. Við hlökkum að sama skapi til að heyra frá ykkur.

 

Ef þið hafið einhverjar spurningar til stjórnar hvetjum við ykkur eindregið til að hafa samband og við reynum eftir bestu getu að bregðast við því.

 

Bestu kveðjur

Norðanstjórnin

SFA Merkið

Merki og Barmmerki

Á vorfundi forstöðumanna almenningsbókasafna 1993 sem haldinn var í Vestmannaeyjum var skipaður starfshópur um merki fyrir íslensk alemnningsbókasöfn. Starfshópurinn kynnti niðurstöður sinar á haustfundi í Grindavík sama ár og í framhaldi af því var ákveðið að láta teikna nýtt merki fyrir söfnin. Einnig var ákveðið að vinna samhliða að vegskilti í samvinnu við Vegagerðina. Það var svo á Landsfundi bókavarða í Munaðarnesi í september 1995 að merkið var kynnt og samþykkt. Jón Ágúst Pálmason hannaði það og lýtur vegskiltið reglum Vegagerðarinnar um útlit en litirnir í litaútgáfu merksins eru táknrænir fyrir hina gömlu og virðulegu leðurinnbundnu bók til lífs- og litagleði ungviðisins.

Öllum bókasöfnum á Íslandi er heimilt að nota merkið.

Um notkun vegskiltisins gilda reglur Vegagerðarinnar.

Barmmerki


Barmmerki með merki almenningsbókasafna er m.a. hægt að panta hjá Skilti og merkingar, Efstaleiti 28, 230 Reykjanesbær.
Borgar Ólafsson s. 421-1225, fax 421-4425, netfang [email protected]